Hin eiginlega gimsteinafræði (Gemology) fer ekki að þróast fyrr en seint á 19.öld og þeirri tuttugustu.   Gimsteinafræði í dag telst vera undirgrein steindafræði sem aftur er fræðigrein innan jarðfræðinnar.  Það sem skilur að gimsteinafræði og hefðbundna steindafræði er að gimsteinafræðin beinist fyrst og fremst að steintegundum sem notaðar eru í skart og teljast verðmætar.

Nokkur áhöld sem gimsteinafræðingar nota, t.d. ljósbrotsmælir, lúpa, töng og vog. Mynd: Shutterstock

Gimsteinafræðingur þarf að vera fær um að greina milli milli tegunda með sérhæfðum tækjabúnaði.  Hann þarf einnig að geta greint á milli gervisteina (synthetic) og náttúrulegra steina.  Staðreyndin er sú að mikið er framleitt af gervisteinum sem hafa alla sömu eiginleika og fyrirmyndin, þe. efnaformúlu, hörku, lit og jafnvel svipaðar innlyksur (inclusions) og fyrirmyndin.  Þetta er einkum vandamál með demanta, rúbín, safír og emeralda.

Gimsteinafræðingurinn þarf einnig að geta greint hvort búið er að eiga við steininn, t.d. hita hann eða glerfylla til að bæta útlit hans.  Almennt eru hitaðir steinar , sérstaklega rúbin og safír ódýrari en steinar sem eru óhitaðir og líta svipað út.

Gimsteinafræðingurinn þarf að hafa í það minnsta góða hugmynd um verðmæti og verðþróun gimsteinategunda.

Nám í gimsteinafræði

Gimsteinafræði er kennd bæði sem diplómunám á styttri námsbrautum og sem háskólanám.  Meðal Þekktustu skóla með diplómunámið er GIA sem er Bandarískur en er einnig með útibú í Bangkok í Tælandi.  AIGS (Asian institute of Gemological Science) er einn virtasti skólinn í Asíu.

Einn elsti og virtasti skólinn sem hægt er að læra gimsteinafræði í til háskólaprófs er Birmingham University í Englandi.

Munurinn á þessum tveim námsleiðum er sá að diplómunámið fer ekki eins djúpt í mjög fræðilega hluti eins og háskólanámið, heldur einblínir á praktískar hliðar og það sem gimsteinafræðingar þurfa að fást við dags- daglega í störfum sínum.  Háskólanámið hentar þeim sem vilja kafa dýpra og vilja leggja fyrir sig kennslu og eða rannsóknir.