Eigandi Gimsteinar.is er sá er þessar línur ritar, Óskar Haraldsson.  Ég útskrifaðist frá AIGS ,Asian Institute of Gemological Sciences, Í Bangkok árið 2017 með „Accredited Gemologist Diploma (A.G.)“.  Að auki er ég með sveinspróf í bakaraiðn, Bs gráðu í rekstrarfræði frá Háskólanum á Bifröst og hef lagt stund á jarðfræði í Háskóla Íslands svo flest sé upptalið.

Það var fyrir áhuga og forvitnissakir að ég ákvað að halda i víking til Bangkok og hefja nám í gimsteinafræðum.  Fljótlega varð mér ljóst að þetta var ekki þægilegt námskeið og góð frí á milli því álagið og kröfurnar voru miklu meiri en mig hafði órað fyrir en að sama skapi óskaplega skemmtilegt.

Það opnaðist nýr og ákaflega spennandi heimur, þegar ein hurð lokaðist þá opnuðust tíu aðrar með ótal spurningum sem ég þráði að fá svör við um allt er varðaði gimsteina.  Hvernig þeir urðu til, hvar þeir finnast, hvernig á að meðhöndla þá, hvernig þekkjast þeir hver frá öðrum og hversvegna sumir þeirra eru svona óskaplega dýrir meðan aðrir fallegir steinar kosta nánast ekki neitt, svo eitthvað sé nefnt.

Ferðalögin komu svo óhjákvæmilega í kjölfarið.  Ég hef heimsótt gimsteinanámur í Tælandi og á Sri Lanka, skoðað gimsteinamarkaði víða um heim og kynnst mjög áhugaverðu fólki sem starfar á þessu sviði.

Á ferðum mínum kaupi ég gimsteina bæði fyrir mig sjálfan og til endursölu.  Hver einasti steinn sem ég kaupi er sérvalinn og sannreyndur í viðeigandi tækjabúnaði. Vegna góðra viðskiptasambanda  get ég boðið steina á mjög góðum verðum.  Bæði verður lager á Íslandi og svo býð ég upp á sérpantanir sé þess óskað.  Rétt er að taka fram til að forðast misskilning að það verða svo til eingöngu í boði náttúrusteinar fyrir utan demanta.  Ástæðan er sú að viðskipti með demanta eru háð allt öðrum lögmálum en viðskipti með „colored stones“ eða litaða steina eins og aðrir gimsteinar eru kallaðir einu nafni.

Þessi vefsiða er því  í senn upplýsingasíða um gimsteina og sölusíða.