FERILL GIMSTEINA FRÁ NÁMUNNI Í VERSLUNINA

Námurnar:

Ein stærsta demantanáma heims er Mirny náman í Síberíu. Mynd: Shutterstock

Vinnsla gimsteina skiptist í mismunandi stig.  Fyrsta stigið er námuvinnslan, að koma steininum frá fundarstaðnum.  Námurnar eru mjög mismunandi.  Demantavinnsla er yfirleitt mjög umfangsmikil, stórar námur og mannfrek vinnsla.  Námuvinnsla annarra gimsteina er yfirleitt minni umfangs og oft mjög frumstæð en þó er þetta misjafnt.  Nýjar Rúbin námur í Mozambique í Afríku eru t.d mjög afkastamiklar og þaðan koma nú um 40% af öllum rúbínum á markaðinn í dag.  Stærsta náman er í Montepuez í Mozambique.

Lítil og frumstæð safírnáma nálægt Chantaburi í Tælandi. Mynd: Óskar Haraldsson

Annarsstaðar, sem dæmi á Sri Lanka þar sem t.d. dýrmætur blár Safír er unninn, eru námurnar mjög frumstæðar.  Eingöngu nokkurra metra djúpar holur ofan í jörðina þar sem fáeinir námuverkamenn athafna sig.

Skurður og slípun

Kristall sem er numinn úr jörðu er að sjálfsögðu óskorinn og óslípaður.  Oftar en ekki er hann nær óþekkjanlegur frá gimsteinum í búðarglugga eða í skartgripum.  Kristalinn þarf að skera og slípa til.  Sá sem sker þarf að hafa margt i huga.  Stærð og lögun kristalsins, sprungur og brot í steinum og  innlyksur í honum sem dæmi.

Demantur með „round brilliant“ slípun. Mynd: Shutterstock

Demantar eru mestmegnis vélskornir nú til dags en annað gildir um flesta aðra steina.  Það er mikil nákvæmnisvinna að skera og slípa til steina og tekur mörg ár að ná nauðsynlegri færni í greininni.  Smávægileg mistök í skurði og slípun geta gert mjög dýra gimsteina því sem næst verðlausa.

Þá er einnig mismunandi hvernig slípun hentar hverri steind.  Vegna lögunar demantakristalla eru þeir oftast slípaðir í svokallaða „round brilliant“ slípun. Oftast er meiri fjölbreytni í slípun á öðrum tegundum gimsteina en sá sem sker og slípar steinninn hefur að sjálfsögðu ætíð í huga að skapa sem mest verðmæti úr honum.

Hitun og önnur meðhöndlun

Mönnum varð það ljóst fyrir margt löngu að suma steina var hægt að bæta verulega útlitslega með því að hita þá.  Kristallar eru hitaðir áður en þeir eru skornir til og slípaðir.

Nokkrar tegundir gimsteina eru hitaðar með það markmið að bæta útlit þeirra eða jafnvel breyta um lit.  Þegar velja skal gimstein til kaups þá skiptir það yfirleitt engu máli upp á verð að gera hvort steinninn sé hitaður eða ekki nema þegar um er að ræða kórund, þ.e. Rúbín eða Safír.  Óhitaður rúbin er allt að 5 sinnum dýrari en hitaður rúbín.  Til þess að greina hvort steinn sé hitaður eða ekki þarf smásjá og eru þá innlyksur í steininum kannaðar.  Sé hann hitaður þá má greina merki um bráðnaða kristalla inni í steininum eða brotnar silkinálar sem dæmi.  Þetta er yfirleitt aðeins á færi menntaðra gimsteinafræðinga. (Gemologist)

Þá eru einnig til nokkrar tegundir hitunar og mismunandi hitastig notað til að ná fram þeim breytingum sem stefnt er  að.

Litmiklir safírar, einkum gulir og appelsínugulir eru í langflestum tilfellum Beryllium hitaðir nú til dags.

Beryllium hitun er ný tegund hitameðhöndlunar sem uppgötvaðist fyrir tilviljun um síðustu aldamót.  Litlausir eða litlitlir safírar eru gjarnan hitaðir með þessari aðferð og fá gjarnan sterkan gulan eða appelsínugulan lit.  Steinninn er hitaður ásamt beryllium dufti en aðferðin uppgötvaðist í Tælandi þegar nokkrir safírar voru hitaðir en óvart hafði slæðst með einn chrysoberyl steinn sem bráðnaði við hitann og blandaðist safírunum.  Fengu þeir þá nýjan, fallegan og sterkan lit.  Mönnum varð þá ljóst að frumefnið beryllium hafði þessi áhrif.  Þrátt fyrir það er mjög erfitt að greina eða réttara sagt sanna að beryllium hafi verið notað til hitunar.

Olíubaðaðir emeraldar.  Þetta kann að hljóma undarlega en emeraldar eru yfirleitt baðaðir uppúr þar til gerðri litlausri olíu til að fylla upp í sprungur og glufur sem eru yfirleitt alltaf á yfirborði emeralda.  Þetta er viðurkennd aðferð og hefur engin áhrif á verð þeirra en seljanda ber þó að láta kaupanda vita um þessa meðhöndlun.  Oft er nú misbrestur á þvi.

Glerfylling.  Þessi aðferð á einkum við um rúbín.  Mikið magn af rúbín í lægri gæðum eru seldir á mörkuðum í Asíu og eru gjarnan með glerfyllingu.  Þetta er tiltölulega auðvelt að greina fyrir kunnáttumann með lúpu og gott ljós því glerfyllingin gefur yfirleitt frá sér bláleitan ljósbarma.  Þessir steinar eru verðlitlir.

Geislun er enn ein aðferð til að breyta lit steins.  Geislun með geislavirkum efnum getur verið erfitt að greina og er heldur ekki alltaf varanleg.  Litabreytingin getur gengið að miklu leyti til baka með tímanum.