Verslun og viðskipti með gimsteina hafa átt sér stað í þúsundir ára einkum á suðlægari slóðum.  Enn og aftur verður að aðskilja viðskipti með demanta frá öðrum gimsteinum því demantavinnslu og söluferlinu var lengst af stjórnað af einu fyrirtæki, De Beers sem stofnað var af breskum viðskiptajöfri árið 1888.  Um tíma réði De Beers yfir 90% af demantamarkaðinum en í dag hefur þetta hlutfall fallið niður í um 30% aðallega fyrir tilkomu kanadískra og rússneskra fyrirtækja.  Verð á demöntum hefur einnig farið lækkandi undanfarin ár vegna aukinnar samkeppni og vegna framleiðslu gervi (synthetic) demanta.

Tæland

Gimsteinamarkaður í Bangkok.
Mynd: Óskar Haraldsson

Hvað aðra gimsteina varðar þá eru helstu markaðir í Asíu.  Silom hverfið í Bangkok í Tælandi er þekkt miðstöð viðskipta með gimsteina.  Tæland er reyndar mikilvæg miðstöð viðskipta með gimsteina.  Heildsölumarkaður er í bænum Chantaburi nærri landamærum Kambódíu þar sem heildsalar frá löndum eins og Burma, Sri Lanka, Indlandi og ýmsum löndum Afríku mæta með vörur sínar.  Þarna er hægt að gera ágæt kaup en auðveldara ef keypt er nokkurt magn í einu.  Dýrustu og bestu steinarnir fara þó yfirleitt beint til Bangkok án viðkomu í Chantaburi.  Í Chantaburi er mikið magn af rúbín í lægri- og milligæðum, safír og semi precious steinum eins og amethyst, citrine, tópas, zirkon og garnet.

Í China Town í Bankok er einnig nokkuð um verslanir með gimsteina.  Þar er þó varhugavert að versla því mikið er af gervisteinum (synthetic) og eftirlíkingum þar og verslunareigendur eru ekki alltaf að láta vita af því.

Sri Lanka

Óslípaðir gimsteinar sýndir á markaði á Sri Lanka.
Mynd: Óskar Haraldsson

Gríðarmikið magn er af gimsteinum í jörðu á eyjunni Sri Lanka.  Þar má nefna safír, spinel, tourmaline, tópas og zirkon.  Blái safírinn frá Sri Lanka er þeirra verðmætastur.  Helstu markaðir með gimsteina eru í bæjunum Beruwela og Ratnapura.  Það er þó ekki fyrir hvern sem er að versla þar, sölumenn nokkuð ágengir og takmörkuðu aðstaða eða tími til að grandskoða steinana.  Þar sem annarsstaðar þarf einnig að gæta sín á synthetic steinum.

Indland

Verslun og viðskipti með gimsteina hafa átt sér stað í árþúsundir í Indlandi.  Helsti markaður þar með vöruna er í borginni Jaipur sem er skammt frá Nýju Delhi.  Þar er einkum hægt að gera góð kaup í ódýrari tegundum eins og Kvars steinum (amethyst og citrine td.), tourmaline og aquamarine.  Það er þó ekki mælt með að fara til Jaipur að versla gimsteina nema hafa sambönd í borginni áður til að komast á rétta staði því markaðurinn þar er ekki fyrir opnum tjöldum.